Skordýr - Meindýr

Yfirlit yfir meindýr, pöddur og skordýr

Ekki er hægt að gefa eitt gott ráð til að verjast meindýrum þar sem meindýr eru ólíkur hópur dýra og varnir gegn þeim eru þess vegna mismunandi. Hér á landi eru nokkrar tegundir sem taldar eru til meindýra og tilheyra þær til dæmis skordýrum (Insecta), áttfætlum (Arachnida), fuglum (Aves) og spendýrum (Mammalia).

Meindýr hafa ýmsar leiðir til að komast inn í hús. Þau geta til dæmis borist með matvælum eða öðrum varningi inn á heimilið. Ham- og hveitibjöllur geta meðal annars borist með þurrvöru. Egg og jafnvel fullorðnar silfurskottur geta borist með fatnaði eða hlutum og svo framvegis. Önnur skordýr og áttfætlur koma sér sjálfar inn í hús, flugur fljúga einfaldlega inn um opna glugga.

Silfurskottur

Silfurskottur eru ekki skaðlegar mönnum en geta verið leiðinlegir sambýlingar þar sem þær geta meðal annars valdið skemmdum á bókum og kornmeti komist þær í slíkt.

Silfurskotta er talin upprunnin í hitabeltislöndum en hefur breiðst út um mestallan heim, nema óstaðfest í S-Ameríku.

Silfurskotta er í byggð víða um Ísland, frá höfuðborgarsvæðinu vestur til Patreksfjarðar; Vogar, Þorlákshöfn og Gnúpverjahreppur á suðvestanverðu landinu, Hofsós og Akureyri á Norðurlandi. Silfurskotta finnst vissulega víðar þó ekki liggi fyrir eintök í söfnum því til staðfestingar.

Silfurskottur lifa innanhúss og þrífst best við kjörhita 25–30°C og kjörraka 75–97%. Hún er langlíf, getur náð 4–5 ára aldri og haldið áfram að vaxa í þrjú ár löngu eftir að kynþroska er náð. Kvendýr hefur hamskipti aðra eða þriðju hverja viku og verpir eggjum á milli hamskipta. Hún verpir einu til þrem eggjum á dag þá daga, alls um 100 eggjum á æviskeiði sínu. Við stofuhita (22°C) klekjast eggin eftir um 40 daga en á skemmri tíma við hærri hita. Það tekur ungviðið 3–4 mánuði að ná kynþroska við 27°C og getur þurft að hafa hamskipti allt að 50 sinnum. Við óhagstæð skilyrði getur þroskaferlið frá eggi til kynþroska tekið allt að tvö til þrjú ár. Undir 15°C fer enginn þroski fram. Við stofuhita næst mest ein kynslóð á ári. Silfurskottur fjölga sér því ekki hratt nema helst í hitakompum með viðvarandi háu hita- og rakastigi. Silfurskotta er alæta en sterkjurík fæða er í mestu uppáhaldi. Hún étur einnig dauð skordýr, hami eftir silfurskottur, rakan pappír og myglusveppi. Með hjálp ensíma brýtur hún niður sellulósa. Silfurskotta athafnar sig fyrst og fremst á nóttinni þegar kyrrð ríkir. Verði hún ónáðuð óvænt með tendruðu ljósi er hún snögg að koma sér undan.

Silfurskotta hefur verið þekkt hér frá fornu fari en heimild frá 18. öld segir hana þá algenga í verslunarhúsnæði án þess að frekari staðsetningar sé getið. Næst er hennar getið frá Eyjafirði 1932 og 1936 og svo í Reykjavík um áratug síðar. Ekki er að efa að silfurskotta hafi verið algeng hér á þessum tímum einkum í eðlilega upphituðum húsakynnum. Silfurskotta er nú hvað algengust á höfuðborgarsvæðinu, einkum í eldri húsum. Silfurskottur geta spillt matvælum og skaðað bækur, pappír og fleira sem geymt við óviðunandi aðstæður. Annars eru silfurskottur nægjusamar og valda yfirleitt litlum skaða. Þær eru fyrst og fremst hvimleiðar.

Fuglaflær (Ceratophyllus gallinae)

Fuglaflær (Ceratophyllus gallinae) eða hænsnaflær (eins og latneska heitið vísar til) eru dæmi um hvimleið meindýr þar sem þær bíta fólk og sjúga úr því blóð. Hér á landi eru þær iðulega kallaðar staraflær vegna þess að þær berast langoftast frá staravarpi, en starinn verpir í mannvirkjum hérlendis þó nokkur vörp séu í klettum. Flærnar geta því borist inn á heimili og vinnustaði og lagst á fólk um stundarsakir með tilheyrandi óþægindum.

Veggjalýs (Cimex lectularius)

Eitthvað hefur borið á veggjalúsum (Cimex lectularius) hérlendis. Veggjalýs sjúga blóð úr fólki og eru afar hvimleið meindýr. Forðast skal til hins ýtrasta að flytja hluti frá „veggjalúsasýktum“ heimilum yfir á ósýkt heimili þar sem egg eða dýr geta borist með hlutum. Afar mikilvægt er að framfylgja slíkum reglum. Leita skal strax til meindýraeyðis ef vart verður við veggjalús eða ef fólk er með bit eða stungusár eftir slík dýr eða önnur skordýr því allur er varinn góður.

Veggjalús (Cimex lectularius) er talin upprunnin í Asíu og hefur fylgt manninum frá örófi alda. Á Íslandi hefur hún fundist í byggð í öllum landshlutum. Margir fundarstaðir eru skráðir í gömlum heilbrigðisskýrslum, ekki síst á Vestfjörðum, en skráðir fundarstaðir á seinni tímum eru dreifðir og strjálir.

Hér á landi lifir veggjalús eingöngu í upphituðu þurru húsnæði. Hún nærist alfarið á blóði sem hún sýgur úr fórnarlömbum sínum sem oftar en ekki eru mannfólkið. Þegar hungur sverfur að skríða lýsnar fram úr fylgsnum sínum sem oftast eru í námunda við svefnstaði, í sprungum og glufum í tréverki, niður með rúmdýnum, í fellingum með saumum, undir gólflistum, í rafmagnsdósum, á bak við myndir og annað sem hangir á veggjum, laust veggfóður eða glufóttan panel; í stuttu máli hvarvetna þar sem felustaði er að finna.

Veggjalús skynjar ekki fjarlægðir í leit að fórnarlambi en hún er sögð merkja varmaútgeislun frá um 10 cm fjarlægð. Hún getur gengið upp eftir veggjum en á erfitt með að feta sig út eftir loftum.

Veggjalúsin sýgur kröftuglega en á 10 mínútum getur hún dregið til sín sjöfalda þyngd sína af blóði. Hungruð er hún flatvaxin en þenst út eftir að hafa sogið blóð. Södd kemur hún sér í skjól, leggst á meltu, makast og verpir eggjum þangað til hún verður hungruð á ný. Hún verpir á felustöðum sínum og límir eggin við undirlagið. Hvert kvendýr verpir allt að 5 eggjum á dag, alls á bilinu 200–500 á æviskeiðinu sem varir í 9–18 mánuði. Við hita undir 10°C verpir lúsin ekki. Eggin klekjast á um 10 dögum.

Ungviðið sem líkist fullorðnu dýrunum hefur hamskipti fimm sinnum á uppvextinum og hver hamskipti kalla á blóðskammt. Við bestu skilyrði (28°C) tekur þroskaferlið 4–5 vikur en getur tekið allt að ár við lakari aðstæður. Flestir fá kláða og óþægindi af bitunum en mikill minnihluti fólks sýnir ekki viðbrögð. Veggjalýs hafa verið taldar saklausar af því að bera sýkla á milli fórnarlamba en þó hafa fundist vísbendingar um að þær geti flutt veiruna sem veldur lifrarbólgu B á milli manna.

Veggjalús er hitakræf og kýs sér þurra staði. Þess vegna náði hún ekki að setjast að á kaldari slóðum fyrr en þar var boðið upp á upphituð og þurrari húsakynni. Í Danmörku birtist hún á 17. öld og varð strax mjög algeng. Húsakynni hér á landi hafa sennilega ekki orðið henni boðleg fyrr en mun síðar, en talið er að hún hafi sest hér að á seinnihluta 19. aldar. Fyrir miðja 20. öld var veggjalús sögð algeng en lítið sem ekkert varð vart við hana á seinni hluta aldarinnar.

Undir aldamótin síðustu tók veggjalús að fjölga á ný og hefur aftur orðið til óþurftar þrátt fyrir þær ströngu kröfur sem fólk nú gerir til íbúðarhúsnæðis. Fjölgun tilfella á seinni árum helst í hendur með fjölgun lúsanna í nágrannalöndum okkar, auknum ferðalögum Íslendinga til útlanda og mikilli fjölgun erlends vinnuafls á hagvaxtarskeiðinu á upphafsárum 21. aldar. Allmörg tilfelli hafa nefnilega litið dagsins ljós í húsnæði þar sem innflytjendur frá Austur-Evrópulöndum hafa haft aðsetur. Veggjalýs hafa einnig náð að koma sér fyrir á hótelum og gistihúsum víða um land en slíkri starfsemi er einkar hætt við sýkingum.

Veggjalús er hvimleiður bólfélagi en hún athafnar sig einkum að nóttu til þegar fórnarlömb liggja fyrir og ugga ekki að sér. Menn verða ekki varir við stungurnar því deyfing er innifalin. Að morgni gerir kláði vart við sig og stundum má greina blóðpunkta á rúmfötum eftir veisluhöld næturinnar. Það getur verið flókið að ráða niðurlögum veggjalúsa. Nauðsynlegt er að kunnáttumaður meti aðstæður vandlega og gangi skipulega til verks með þeim ráðum sem eru í boði og þykja henta á hverjum stað.

Rykmaurar

Rykmaurar eru tvímælalaust algengustu dýrin í rúmum og teppum inni í húsum landsmanna. Þar geta þeir lifað góðu lífi á húðflögum sem sífellt eru að losna af hörundinu, einkum ef hita- og rakastig í herberginu er hátt. Maurarnir sem slíkir eru taldir hættulausir en leifar af dauðum maurum, og síðast en ekki hvað síst skíturinn úr þeim, geta valdið svæsnu ofnæmi hjá sumu fólki.

Fjölmargar dýrategundir, einkum þó skordýr, slæðast iðulega utan úr náttúrunni inn í hús landsmanna en flestar kunna þær illa við sig innandyra og deyja fljótt. Aðalástæðan er hitinn inni í húsunum, lítill raki og léleg fæðuskilyrði, einkum þar sem reglulega er þrifið! Þó eru á þessu undantekningar, einkum ef dýrin geta lifað á blóði.

Skemmukönguló

Skemmukönguló finnst einungis innanhúss hér á landi eins og í nágrannalöndunum, en hún lifir utanhúss á suðlægari slóðum. Hana er einna helst að finna í vöruskemmum og á vörulagerum og í tengslum við innflutning á varningi. Hefur einnig fundist í kjöllurum og utan við gróðurhús. Skemmuköngulær finnast við þessar aðstæður allt árið um kring en flestar þó að síðla sumars og að haustlagi. Á þeim tíma finnast kynþroska karldýr í mestum mæli en kynþroska kvendýr sjást hins vegar allt árið.

Skemmukönguló er ein fjögurra stórvaxinna köngulóa sem er náskyld húsaköngulónni okkar sem er miklum mun minni. Þessar stóru tegundir eru hver annarri líkar og áttuðu menn sig því lengi vel ekki á því að um fleiri en eina stórvaxna tegund af þessu tagi væri að ræða. Löngum var talið að einungis væri um að ræða tegundina fragtkönguló (Tegenaria saeva). Elsta eintak skemmuköngulóar sem varðveitt er í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands fannst í verslun í Reykjavík 1980.

Skemmuköngulær berast til landsins reglulega með varningi og eru flestar sem hér finnast að öllum líkindum þannig til komnar. Þó er afar líklegt að tegundin hafi náð hér bólfestu í vöruskemmum og jafnvel víðar. Hún hefur til dæmis fundist í nokkrum mæli utan við gróðurhús í Hveragerði og í verksmiðju á Selfossi.

Skemmukönguló er fráleitt auðgreind frá fragtkönguló, né heldur öðrum tegundum ættkvíslarinnar, og grunur leikur jafnvel á að blöndun geti átt sér stað milli tegundanna tveggja. Allar tegundir þessarar ættkvíslar (Tegenaria) eru dökkbrúnar á lit, með ljósbrúnna mynstri bæði á bol og fótum, lappalangar og viðbragðsfljótar. Tegundirnar verða ekki aðgreindar með vissu nema með ítarlegum rannsóknum á þreifurum karldýra, sem gegna grundvallarhlutverki við mök, og á kynfærum kvendýranna. Skemmukönguló gerir sér trektlaga vef í skúmaskotum sem er ekki límborinn. Ef bráð þvælist inn á vefinn er hún gripin með áhlaupi.

Veggjalús

Efst á lista blóðsjúgandi sníkjudýra er veggjalúsin. Hún tekur sér gjarnan bólfestu í rúmum manna og nærist á blóði þeirra, einkum að næturlagi en veggjalúsin lætur lítið á sér kræla að degi til. Veggjalúsin barst hingað með norskum hvalföngurum um 1890 og dreifðist næstu áratugina til allra landshluta. Henni var endanlega útrýmt hér á landi fyrir nokkrum áratugum. Á seinni árum hefur þó orðið vart við einsök tilfelli af veggjalús. Afar brýnt er að ráða niðurlögum hennar áður en að hún nær að dreifa sér.

Mannafló

Næst á listanum er mannaflóin. Hún var afar algeng á Íslandi langt fram eftir 20. öldinni og lifði góðu lífi í bælum landsmanna þar sem lirfurnar höfðu iðulega nóg að bíta og brenna, til dæmis í gömlum og skítugum ullar- eða heydýnum. Bættur húsakostur, aukin þrif og tilkoma virkra skordýralyfja um miðbik tuttugustu aldarinnar gegndu lykilhlutverki í því að útrýma mannaflónni og ýmissri annari óværu á Íslandi.

Fyrir skömmu fékk höfundur þessa svars mannafló til skoðunar. Málsatvik voru þau að rétt fyrir brottför með flugvél til Íslands heimsótti íslensk kona sveitabýli erlendis þar sem mannaflær virðast hafa verið algengar. Flutti hún mannafló á líkama sínum til landsins og heim komin tók flóin sér bólfestu í rúmi konunnar. Lifði flóin þar góðu lífi í nokkra daga eins og fjölmargar upphleyptar kláðabólur á líkama konunnar báru órækt vitni um. Undi konan þessu þó ekki heldur leitaði ráða hjá sníkjudýrafræðingum á Tilraunastöðinni á Keldum. Var henni þar bent á að leita að sökudólgnum og fannst hann fljótlega. Smásjárskoðun sýndi að þarna var á ferðinni mannafló.

Kattafló

Kettir eru iðnir við að bera nagdýra- og fuglaflær inn í íbúðir landsmanna á vorin og fram eftir sumri, einkum veiðikettir sem hafa verið að snudda í hreiðrum og fengið þá á sig flær. Flærnar berast auðveldlega inn í íbúðir í feldi kattarins. Þar fara þær á flakk og oftar en ekki hafa þær fundist í rúmum heimilismanna. Nagdýra- og fuglaflær geta lifað vikum saman inni í íbúðum og lifa þar á blóði úr heimilisfólki eða gæludýrum.

Hitabeltis-rottumaurar

Síðasta dæmið sem hér skal tilfært eru svokallaðir hitabeltis-rottumaurar en þeir geta lifað á ýmsum gæludýrum sem og fuglum. Síðasta ár varð ungur eigandi stökkmúsa fyrir því að þessum maurum hafði fjölgað svo ört í bæli gæludýranna að maurarnir voru farnir að hópast upp í rúmið til drengsins og sjúga úr honum blóð. Maurarnir geta auðveldlega borist með gæludýrum inn á heimili en hægt er að halda maurunum að mestu í skefjum með því að skipta reglulega um hreiðurefni hjá gæludýrunum.

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom …? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Fristrup, B. 1945. Hemiptera 1. Heteroptera and Homoptera Auchenorhyncha. Zoology of Iceland III, Part 51. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 21 bls.

Geir Gígja 1940. Veggjalýsnar. Náttúrufræðingurinn 10: 44–48.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Högni Böðvarsson 1957. Apterygota. Zoology of Iceland III, Part 37. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 86 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Mohr, N. 1786. Forsøg til en islandsk Naturhistorie med adskillige økonomiske samt andre Anmærkninger. Kaupmannahöfn. 16+413 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

olkehelseinstituttet 2009. Veggedyr. http://www.fhi.no/artikler/?id=59118 [skoðað 7.8.2009]

Preston-Mafham, R. & K. Preston-Mafham 2005. Encyclopedia of insects and spiders. Grange Books, Hoo. 288 bls.

Tuxen, S.L. 1938. Protura und Thysanura aus Island. Vidensk. Meddr dansk natruh. Foren. 102:19–25.

Wikipedia. Tegenaria atrica. http://en.wikipedia.org/wiki/Tegenaria_atrica [skoðað 1.9.2010]

Örnólfur Thorlacius 2009. Silfurskotta. Heima er bezt 59 (10): 467.